Í síðustu viku sigldu nokkur rússnesk herskip nálægt eyjunni en um borð í þeim eru um 6.000 hermenn. Sænskir hernaðarsérfræðingar segja að Eystrasalt sé nú orðið vettvangur hernaðarumsvifa sem ekki hafa sést í þessum mæli síðan á dögum kalda stríðsins. Bæði Rússland og NATO hafa aukið umsvif sín í Eystrasalti að undanförnu.
Sænskir stjórnmálamenn hafa miklar áhyggjur af þróun mála á svæðinu og hlutum Austur-Evrópu. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, sagði í tilkynningu að sænsk yfirvöld hafi fylgst með þróun mála í Eystrasalti um hríð og sendi nú frá sér skýr skilaboð til bandamanna sinna og Rússa um að þeir séu reiðubúnir til að verja sænska hagsmuni og sjálfsstjórn.
Fyrir 15 árum hætti sænski herinn allri starfsemi á Gotlandi þegar mikið var skorið niður í umsvifum hans. Segja má að eyjan hafi árum saman verið án varna en á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að herinn skyldi taka sér stöðu á eyjunni á nýjan leik með tilheyrandi búnaði.