fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Pressan

Færir fyrir því rök að New York verður aldrei sú sama – „New York er dauð að eilífu“

Heimir Hannesson
Laugardaginn 15. ágúst 2020 10:30

New York án rafmagns. mynd/nationalgeographic

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir Íslendingar þekkja New York borg og áruna sem sveipar borgina. Það eru margar borgir í heiminum, en engin eins og New York. Það er erfitt að benda á nákvæmlega hvað veldur þessari sérstöðu borgarinnar, en eitthvað er það.

Athafnamaðurinn og pistlahöfundur í m.a. Wall Street Journal og The Huffington Post, James Altucher, vill nú meina að þetta „eitthvað“ sé horfið, og komi ekki aftur.

Ég elska New York-borg. Þegar ég flutti fyrst hingað var það draumur orðinn að veruleika. Hvert einasta horn var eins og leikrit að gerast beint fyrir framan mig. Svo mikill persónuleiki, svo margar sögur. Allir undirmenningarheimarnir sem ég elskaði voru í New York. Ég gat spilað skák alla daga og allar nætur, ég gat farið á uppistand. Ég gat stofnað hvernig fyrirtæki sem er. Ég gat hitt fólk. Ég átti fjölskyldu, vini, tækifæri. Hvað sem gerðist við mig, New York var net sem ég greip mig og kastaði mér aftur á lappir.

Nú er borgin algjörlega dauð. „En New York snýr alltaf aftur.“ Nei, ekki í þetta sinn. „En New York er miðstöð fjármála í heiminum og tækifærin snúa aftur.“ Nei, ekki í þetta sinn.

Þannig hefst grein James Altucher þar sem hann færir fyrir því rök að staða New York sem miðstöð fjármála, menningar, lista og matar sé liðinn.

Altucher færir fyrir þau eftirfarandi rök:

Viðskiptaborgin

Miðhluti Manhattan, (e. Midtown), sem er alla jafna er miðstöð New York borgar, er tómur. Skýjakljúfar borgarinnar eru tómir. Fyrirtæki hafa áttað sig á að þau þurfi ekki að hafa starfsmenn sína á staðnum. Raunar, hafa þau mörg hver áttað sig á því að starfsmennirnir eru margir afkastameiri heima hjá sér en á skrifstofunni. Altucher bendir á að Time Life byggingin, sem hýsir á venjulegum degi 8.000 starfsmenn. Nú eru um 500 manns starfandi í húsinu.

Time Life byggingin

Altucher bendir á að fólk sé nú ýmist búið að flytja skrifstofuna sína heim, eða flutt frá New York með skrifstofuna sína og tekur nú fundi í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom eða símann. Bókaútgáfur jafnt sem fjármálafyrirtæki eru búin að átta sig á þessum möguleika og eru að nýta sér hann.

Leiga á vissum svæðum New York hefur hrunið um 30% á undanförnum mánuðum. Fólk er einfaldlega búið að fá nóg og er að flytja burt, segir Altucher.

Einn viðmælandi hans segist hafa verið sannfærður um að hanga áfram í New York lífið, en eftir að hafa séð glæpi fjölga, heimilisleysi aukast og ofbeldi harðna hafi hann hugsað sig um að nýju. Botninn tók svo úr þegar hann frétti að 19 ára stelpa hafi verið skotin við uppáhalds garð sinn í borginni, Madison Square Park.

Altucher segir að jafnvel á 8. áratugnum þegar glæpa alda hreif borgina með sér í það sem flestir kalla mestu lægð New York fyrr og síðar, hafi borgin haldið sér sem miðstöð lista, matarmenningar, auglýsingabransans, útgáfu og fjármála í heiminum. Þangað hafi fólk komið til þess að spreyta sig. New York var borg tækifæranna.

 

8. áratugurinn fór ekki vel með New York borg

New York borg hefur aldrei verið lokuð, svo að segja, í fimm mánuði. Ekki í neinum faraldri, stríði, krísu, aldrei, segir Altucher.

Fólkið sem fór í upphafi faraldursins hefur ekki snúið aftur. Í júní þegar mótmælaalda vegna morðsins á George Floyd braust út í borginni, flutti Altucher burt. Hann á börn og fylltist óhug þegar hann sá óeirðaseggi reyna að brjóta sér leið inn í byggingu sína. Margir fluttust tímabundið, en líka margir varanlega. Nashville, Miami, Austin, Denver, Salt Lake City, Austin, Dallas, eru nýjar heimaborgir þessa fólks. Fasteignaverð í New York er fallið um 30-50%, segir Altucher, „sama hvað fasteignasalar segja.“ Á móti hækkar fasteignaverð í áðurnefndum borgum.

Menningarborgin

Uppistandsklúbbur sem Altucher á hlut í er nú lokaður og er lokunin lengsta samfellda lokun hans síðan hann opnaði 1986. Þar áður var klúbburinn hverfisleikhús. Svið klúbbsins hefur hýst Henry Winkler, Jim Gaffigan, Jerry Seinfeld og Tracy Morgan.

Broadway er lokað. Lincoln Center er lokað. Söfnunum hefur verið lokað. Hér eru tug þúsundir starfa undir, milljóna dollara tekjur af ferðamönnum tapaðar, en það sem alvarlegast er, samkvæmt Altucher, er að þessi „þörf“ fyrir sýningar, skriða listalífsins, hún færist einfaldlega eitthvað annað. Munu framleiðendur, handritshöfundar, fjárfestar, sviðsstarfsmenn, leigusalar, leikhúsrekendur og leikararnir sjálfir bíða í heilt ár, atvinnulausir í New York – eini dýrust borg heims?

Matarborgin

„Uppáhalds veitingastaðir mínir eru lokaðir, varanlega. Líka næst uppáhalds, og þriðji uppáhalds,“ segir Altucher.

Gluggar sem eitt sinn skörtuðu dúklögðum borðum, logandi kertum og girnilegum matseðlum eru nú plastaðir og „til leigu“ skilti komnir í staðinn. Altucher bendir á að fyrir faraldurinn hafi meðal veitingastaður haft takmarkað lausafé. Að meðaltali hafi lausafé veitingahúsa í New York dugað til að greiða 16 daga rekstarkostnað. Það er mjög lítið. Samkvæmt Yelp hafa um 60% af veitingahúsum í New York lokað.

Þegar einn veitingastaður lokar, verður rekstur þess næsta erfiðari. Veitingastaðir vilja hafa aðra veitingastaði í nágrenni við sig. Þannig verða til veitingahúsaþyrpingar, til dæmis „litla-Indland,“ og „litla-Kórea.“ Þegar fer að molna úr þessum þyrpingum er hætt við að þeir hverfi allir. Hvert fara starfsmennirnir? Þeir fara beint úr New York, segir Altucher.

Sumir benda á að nú sé rekstarkostnaður veitingahúsa lægri enda fasteignakostnaður lækkað og enn aðrir benda á að nú sé samkeppnin minni fyrir veitingahús í borginni. Altucher spyr á móti, hver vill opna veitingastað í borg þar sem 100 þúsund veitingastaðir hafa lokað á undanförnum vikum? Fólk mun, samkvæmt honum, bíða og sjá áður en vaðið er í fjárfestingar.

Fasteignir fyrirtækja

Eins og þeir sem heimsótt hafa New York þekkja, þá eru jarðhæðir háhýsa yfirleitt prýddar verslunum og þjónustu, og efri hæðirnar íbúðum. Altucher vill meina að takist byggingum ekki að leiga út jarðhæðina, sem er dýrust og aflar langmestra tekna fyrir eigendur byggingarinnar, fari rekstraraðilar bygginganna á hausinn. Þá hrynja fasteignaverð og vítahringurinn hefst. Fólk hugsar, „nei, ég heyrði að fasteignaverð sé á niðurleið svo ég bíð aðeins,“ og því fleiri sem bíða, því lægri verður eftirspurnin og áfram lækkar verðið. „Jú, ég hafði rétt fyrir mér, fasteignaverð lækkaði, en hvað ef ég bíð aðeins lengur?“

Áfram lækka verðin og verðhjöðnunarspírallinn heldur áfram. Fasteignaeigendur og leigusalar verða gjaldþrota. Minni peningur til skiptanna innan borgarinnar. Viðhald fasteigna minnkar.

Háskólar

„Það eru, samkvæmt Altucher, um 600 þúsund háskólanemar í New York borg. Columbia, Baruch, Fordham, St. Johns o.s.frv. Fara þessir skólar í fjárnámsfyrirkomulag varanlega? Hvenær snúa krakkarnir aftur á vettvang? Sumir háskólar bíða með ákvörðun sína og halda deildum sínum í fjarnámsfyrirkomulagi. Á meðan búa krakkar ekki í New York. Af hverju ættu þau að hanga í rándýrri borg þegar þau geta verið heima hjá foreldrum sínum.

Columbia háskóli í New York

Altucher spyr: „Hvað ætli gerist ef 100 þúsund af þessum 600 þúsund snúa aldrei aftur?“

„Það eru ansi margar íbúðir sem fyllast ekki, ansi margar byggingar sem standa tómar, leigusalar sem geta ekki greitt sína reikninga.“

„New York snýr alltaf aftur!“

Nei, ekki í þetta sinn, segir Altucher. Altucher segist hafa búið steinsnari frá Tvíburaturnunum 11. september 2001. Miðbærinn, þar sem hann bjó, var eyðilagður. En hann snéri aftur innan tveggja ára. Sömu sögu var að segja í kjölfar efnahagshremminganna 2008 og 2009.

En í þetta skipti eru málin öðruvísi, segir hann. Altucher segist ekki hafa neinn hag af því að tala svona, þetta sé bara svona. „Ég vona að þeir sem segja New York alltaf snúa aftur hafa rétt fyrir sér, ég vona það innilega, en ég trúi því ekki.“

Bandvíddin bjargvætturinn og sökudólgurinn

Altucher segir algenga bandvídd árið 2008 hafa verið 3 mb/sek. Það er ekki nóg fyrir Zoom fund með áreiðanlegri tengingu. Nú er bandvíddin 20 mb/sek. Það er meira en nóg. Altucher vill meina að nútímasögu megi skipta í fyrirbandvídd og eftirbandvídd. „Fyrir: heima vinna ekki í boði. Eftir: svo til allir geta unnið heima.“

Time Life byggingin þarf ekki að fyllast aftur. Wall Street getur nú verið allar götur. Fjarfundir, fjarnám, fjarmenning. Þetta er möguleiki í dag segir Altucher.

Hann vill meina að við höfum fengið 5 mánaða námskeið á meðan á Covid-19 faraldrinum stendur til þess að læra á þetta nýja líf. Það námskeið og það sem við lærðum af því mun teygja sig inn í „post-covid19“ heiminn.

„Það vill enginn standa í því lengur að fljúga í tvo tíma til þess að eiga einn fund. Ég get séð mitt uppistand á Zoom. Ég get tekið námskeið hjá bestu kennurum heims í stað þess að eyða milljónum í nám þar sem kennarafjöldi og val á milli þeirra takmarkað.

Valið er meira í dag. Nú getur maður búið í tónlistarborginni Nashville, „næsta silíkon dalnum,“ Austin. Þú getur búið í þínum heimabæ, en samt unnið í New York, með New York tekjur.

Hvað þyrfti til þess að snúa til baka?

Það verða ekki atvinnutækifæri í New York í nokkur ár. Fyrirtæki þróast og aðlagast. Fólk líka. Altucher segir jafnframt að það er miklu ódýrara fyrir fyrirtæki að starfa samkvæmt þessu nýja módeli og bandvíddin eykst bara og eykst.

Gæði veitingastað og menningar munu aukast í annars og þriðja flokks borgum eftir því sem hæfileikar flæða burt úr rándýrum fyrsta flokks borgum.

Skattar eru yfirleitt talsvert hærri í stórum borgum, til dæmis um 16% í New York. „Nú spyr fólk,“ segir Altucher, “afhverju ætti ég að vera að borga svona háa skatta og að eiga við öll þau vandamál sem fylgja því að búa í risaborg.“

Það eru vandamál við það að búa í stórborgum, segir Altucher, stór vandamál. Þegar allt gengur vel er fólk tilbúnara en ella til þess að líta fram hjá þeim vandamálum. New York er rekin með 9 milljarða dala tapi á ári. Milljarður meira en borgarstjórinn hélt. Hvernig borgar borgin sínar skuldir? Jú, auðvitað með sköttum, segir Altucher. En ef öll þessi störf hverfa í borginni og koma ekki aftur, verður ekki úr miklum skatttekjum að moða.

Ég elska líf mitt í New York. Ég á vini um alla borg. Fólk sem ég hef þekkt í áratugi. Ég get farið úr íbúðinni minni og beint yfir götuna á uppistandsklúbbinn sem ég á hlut í og ég get farið upp á svið og haldið uppistand. Ég get stokkið með Uberbíl og hitt hvern sem er, eða spilað borðtennis, eða farið að sjá bíómynd eða farið á uppáhalds veitingastaðinn minn og svo séð leikrit. Ég get farið í garðinn og spilað skák og hitt vini. Ég gæti nýtt mér alla þá ótal möguleika sem borgin hefur upp á að bjóða. En ekki meir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt