CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að frá Grænlandsjökli renni rúmlega 280 milljarðar rúmmetra af bráðnandi ís út í sjóinn árlega. Jökullinn á stærstan hlut í að sjávarborð fer hækkandi að sögn Michalea King, sem vann að rannsókninni.
Bráðnunin hefur verið svo mikil á síðustu árum að það hefur valdið mælanlegum breytingum á þyngdarsviðinu yfir Grænlandi.
Ian Howat, sem einnig vann að rannsókninni, sagði að jökullinn sé nú í þeirri stöðu að þótt við gætum snúið aftur til loftslags eins og var fyrir 20 til 30 árum þá myndi jökullinn fljótlega fara að tapa massa.
Bráðnun Grænlandsjökuls veldur því að yfirborð sjávar hækkar um rúmlega einn millimetra á ári og líklegt má telja að sú tala hækki. Hækkun sjávarborðs kemur sér illa fyrir mörg ríki sem standa lágt yfir sjávarborði.