Allar dýratilraunirnar stóðust allar kröfur um öryggi og virkni bóluefnisins og því var hafist handa við að prófa það á fólki. Tveir hópar sjálfboðaliða tóku þátt í prófununum, 38 í hvorum.
Það var Vladímír Pútín, forseti, sem tilkynnti á þriðjudaginn að Rússar hefðu fyrstir þjóða samþykkt bóluefni gegn kórónuveirunni. Heilbrigðisyfirvöld samþykktu bóluefnið eftir tæplega tveggja mánaða tilraunir á mönnum.
Um allan heim vinna vísindamenn hörðum höndum að þróun bóluefnis gegn veirunni sem hefur nú borist í rúmlega 20 milljónir manna um allan heim.
Venjulega eru bóluefni ekki samþykkt til notkunar fyrr en að undangengnum prófunum á mörg þúsund manns. Af þessum sökum eru yfirvöld í ESB og Bandaríkjunum efins um rússneska bóluefnið og sömu sögu er að segja hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO.