Fyrir tveimur árum var auður fjölskyldunnar metinn á sem svarar til um 4.800 milljarða íslenskra króna en í dag er hann aðeins metinn á sem svarar til um 1.170 milljarða íslenskra króna. Fjölskyldan, þar sem mæðginin Maria-Elisabeth Schaeffler-Thumann og George Schaeffler, eru í fararbroddi getur þó huggað sig við að ekki er um beinharða peninga að ræða sem hafa tapast. Það er verð hlutabréfa í fyrirtækjunum Continental AG og Schaeffler AG sem hefur hrapað og þar með hafa eignir þeirra rýrnað sem því nemur. Bloomberg skýrir frá þessu.
Lækkun hlutabréfaverðsins má aðallega skýra með því að fyrirtækin tvö framleiða aðallega dekk og annað fyrir bílaiðnaðinn sem hefur hefur farið illa út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar. Sala fyrirtækjanna hefur dregist mikið saman og neytendur hafa beint sjónum sínum í auknum mæli að rafbílum og það er ekki til að bæta ástandið hjá fjölskyldufyrirtækjunum. Verð hlutabréfa í þeim hefur lækkað um rúmlega 20% á árinu.
George Schaeffler, er nú kominn niður í 19. sæti listans yfir ríkustu Þjóðverjanna eftir þetta mikla tap. Hann á 80% af Schaeffler AG sem hann fékk í arf eftir föður sinn 1996. Fyrirtækið keypti síðan keppinautinn Continental AG 2008. Fjölskyldan lenti í erfiðleikum í fjármálakreppunni 2008 og varð að taka stór lán til að komast í gegnum hana en það tókst og naut hún síðan góðs af efnahagsuppsveiflunni sem tók við.