Yfirleitt sækja um 500.000 gestir hátíðina en reiknað er með minni aðsókn þetta árið vegna heimsfaraldursins. En það að svo margir ætli að safnast saman í litlum bæ vekur áhyggjur hjá mörgum íbúum þar og sérfræðingum á heilbrigðissviði sem óttast að bærinn verði einhverskonar smitsprengja.
Um 7.000 manns búa í bænum en um síðustu helgi streymdi mótorhjólafólk þangað í þúsundatali. Jonathan Reiner, sérfræðingur CNN í læknisfræði, sagðist ekki hafa áhyggjur af þeim sem keyra bara um á mótorhjólunum sínum. Það sé hins vegar það sem gerist á kvöldin, á börum, veitingastöðum, hótelum og götum úti sem valdi honum áhyggjum. Hann óttast að hátíðin verði smitsprengja.
Yfirvöld í Suður-Dakóta hafa ekki gripið til neinna aðgerða vegna heimsfaraldursins og því þarf enginn að nota munnbindi eða óttast að fjöldatakmarkanir ríki á samkomum. Kristi Noem, ríkisstjóri, hefur einnig veitt heimild fyrir samkomunni sem fagnar 80 ára afmæli í ár.