VG skýrir frá þessu. Haft er eftir Svein Holden, lögmanni Hagen, að málinu verði nú skotið til dómstóla í því skyni að fá haldlagningu lögreglunnar á því aflétt.
„Lögreglan hefur lagt hald á húsið. Hún hefur skýrt okkur frá að hún vilji framlengja haldlagninguna í þrjá mánuði hið minnsta. Það er erfitt fyrir okkur að sjá nauðsyn þess að útiloka Tom Hagen frá eigin heimili í hálft ár, nú þegar meira en hálft annað ár er liðið síðan Anne-Elisabeth Hagen hvarf frá Sloraveien 4 (heimili hjónanna, innsk. blaðamanns).“
Sagði Holden í samtali við VG. Hann hefur beðið lögregluna um að senda gögn varðandi haldlagninguna og rökstuðning fyrir henni til undirréttar í Nedre Romerike til að dómstóllinn geti úrskurðað um lögmæti hennar.
Lögreglan telur þörf á að halda húsinu lengur og sagði talsmaður hennar í samtali við VG að niðurstöður rannsókna í húsinu geti veitt svar við hver örlög Anne-Elisabeth voru. Lögreglan telur að Tom Hagen sé viðriðinn hvarf hennar, annað hvort hafi hann myrt hana eða átt beina aðild að hvarfi hennar.