„Við erum vitni að miklum hörmungum. Það eru fórnarlömb og særðir alls staðar.“
Þetta sagði George Kettani, yfirmaður Rauða krossins í borginni, að sögn fjölmiðla í borginni.
Sprengingin var svo öflug að hún jafnaðist á við jarðskjálfta upp á 3,5 að sögn vísindamanna hjá þýsku jarðfræðistofnuninni. Hún er sögð hafa fundist á Kýpur sem er í 230 km fjarlægð.
Margir hinna slösuðu geta ekki fengið meðhöndlun á sjúkrahúsum því þau eru yfirfull. Sjúkrahús hafa sent út ákall til borgarbúa um að gefa blóð. Margir liggja enn grafnir í húsarústum en fjöldi húsa hrundi til grunna.
Ástandið í borginni var slæmt fyrir en ríkið er að hruni komið, þar er skortur á matvælum, efnahagurinn er í rúst og pólitísk staða er erfið og flókin.
Ekki er enn vitað með vissu hver orsök sprengingarinnar er en vitað er að á hafnarsvæðinu, þar sem hún varð, voru geymd 2.750 tonn af mjög sprengifimu efni, ammoníumnítrati, sem er bæði hægt að nota til sprengjugerðar og í áburð.