CNN skýrir frá þessu. Á miðvikudaginn handtók lögreglan þennan 62 ára raðmorðingja í höfuðborginni Nýju-Delí. Þar hafði hann búið með ekkju einni og síðan kvænst henni á þeim sex mánuðum sem hann gekk laus.
Við yfirheyrslu játaði Sharma að hafa rofið skilyrðin fyrir leyfinu úr fangelsinu og hefði ekki í hyggju að snúa aftur í það. En hann virtist þurfa að létta á hjarta sínu því hann byrjaði síðan að segja frá glæpum fortíðarinnar.
Sharma útskrifaðist sem læknir og rak læknastofu í Rajasthan í 11 ár, frá 1984. Hann tapaði miklum fjármunum í svikastarfsemi og dróst eftir það inn í sölu á ólöglegum gashylkjum. Því næst var hann viðriðinn ólöglegar nýrnaígræðslur og var hann handtekinn 2004 vegna þess. Lögreglan sagði hann hafa komið að 125 slíkum ígræðslum og hefði haft stórfé upp úr hverri og einni.
Sharma játaði fyrir lögreglunni að hann og samverkamenn hans hefðu látið að sér kveða í Uttar Pradesh. Þar hefðu þeir tekið leigubíla og látið bílstjórana aka með sig á afvikna staði þar sem þeir myrtu þá. Líkunum var síðan hent í vötn full af krókódílum. Þetta gerðu þeir til að líkin myndu ekki finnast.
Eftir að hafa losað sig við líkin seldi Sharma leigubílana, annaðhvort í heilu lagi eða í hlutum, og fékk sem svarar til um 40.000 íslenskra króna fyrir hvern.
Hann játaði aðild að morðum á rúmlega 50 leigubílstjórum en var aðeins sakfelldur fyrir sjö þeirra að sögn lögreglunnar.
Samkvæmt fréttum indverskra fjölmiðla frá 2008 þá var Sharma á sínum tíma handtekinn þegar hann var að reyna að myrða leigubílstjóra.