AP segir að átta af þeim sem hafa látist fram að þessu hafi setið á svokölluðum „dauðagangi“ en þeir höfðu allir verið dæmdir til dauða.
Joe Garcia er einn þeirra fanga sem hafa fengið COVID-19. Hann skrifaði grein í Washington Post um hvernig það er að vera smitaður í fangelsi og bar greinin yfirskriftina:
„Í San Quentin-fangelsinu situr þú og bíður eftir að COVID-19 komi og taki þig.“
Í greininni segir hann að hann hafi verið settur í einangrun og hafi liðið illa. Hann hafi sagt hjúkrunarfræðingi að honum væri óglatt, hann hafi svitnað á nóttunni og verið mjög veikburða.
„Þú átt ekki erfitt með andardrátt svo þú mátt ekki fara á sjúkrahús. Það er bara líkami þinn sem berst við veiruna. Taktu verkjalyf og drekktu mikið vatn.“
Sagði hjúkrunarfræðingurinn og bætti við:
„Þú ert einn af þeim heppnu.“
Ólíkt mörgum öðrum bandarískum fangelsum tókst lengi vel að halda kórónuveirunni frá fangelsinu. En það breyttist í lok maí þegar 121 fangi var fluttur þangað úr Chino-fangelsinu sem er einnig í Kaliforníu.
Allir fangarnir höfðu farið í sýnatöku áður en þeir voru fluttir á milli fangelsanna og voru sýnin neikvæð. En eftir því sem Los Angeles Times segir þá voru sum sýnin tekin allt að fjórum vikum áður en fangarnir voru fluttir á milli fangelsanna. Sumir þeirra smituðust síðan á milli þess sem sýni voru tekin úr þeim og þar til þeir voru fluttir í San Quentin. Þeir báru kórónuveiruna því með sér í þetta stóra fangelsi en þar voru. 3.462 fangar í lok júní. Tölur frá fangelsinu sjálfu sýna að rúmlega 2.000 fangar hafa nú smitast af veirunni. 258 fangaverðir hafa einnig smitast.
Tölur sýna að það eru miklu meiri líkur á að smitast af kórónuveirunni í fangelsum en utan þeirra. Sem dæmi má nefna að í Texas er um tíundi hver fangi smitaður af veirunni en ef litið er á íbúa ríkisins í heild þá er hlutfallið 1,5 prósent. Í Arkansas og Ohio er hlutfallið enn hærra en þar eru 15 sinnum meiri líkur á að smitast í fangelsi en utan þeirra.