Nýlega sendi Hvíta húsið út tilkynningu um að Trump leiði nú einstæða baráttu til að tryggja Bandaríkjamönnum skjótan aðgang að bóluefni gegn kórónuveirunni.
„Bóluefni er væntanlegt. Einnig lyf. Þetta gengur hraðar en vænst var.“
Er haft eftir Trump í tilkynningunni og hann slær því föstu að markmið Operation Warp Speed sé að framleiða og afhenda 300 milljónir skammta af bóluefni í janúar á næsta ári. Einnig kemur fram að nú þegar sé góður árangur farinn að sjást af samstarfi ríkisstjórnar Trump og einkafyrirtækja.
Loforð um bóluefni gæti verið trompið sem Trump þarf á að halda til að spila út á lokaspretti kosningabaráttunnar. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð ríkisstjórnar hans við heimsfaraldrinum og vinsældir hans hafa dalað mikið vegna þess. Hann þarf því á einhverju sérstöku að halda til að bæta fylgið. Samkvæmt skoðanakönnunum er andstæðingur hans, Joe Biden, með allt að 10 prósentustiga forskot og því ljóst að mikið verk er fyrir höndum hjá Trump ef hann á að sigra í kosningunum 3. nóvember.