„Þetta er Spútnik-augnablik.“
Er haft eftir Kirill Dmitriev forstjóra Russina Direct Investment Fund sem fjármagnar vinnuna við bóluefnið. Hann vísar þarna til Spútnik gervihnattarins sem var sendur á braut um jörðina 1957 en með því tóku Sovétríkin forystu í geimkapphlaupinu því þau voru fyrsta landið sem náði þessum áfanga.
„Bandaríkjunum brá í brún þegar þau heyrðu hljóðin frá Spútnik. Það sama á við um þetta bóluefni. Rússland vill koma fyrst í mark.“
Sagði Dmitriev.
Fréttin um rússneska bóluefnið kemur á sama tíma og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, stærir sig af að barátta hans fyrir þróun bóluefnis sé meiri og betri en hjá nokkrum öðrum og að virkt bóluefni verði tilbúið fyrir Bandaríkjamenn í janúar á næsta ári.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada hafa margoft varað við að rússneskir tölvuþrjótar hafi beint spjótum sínum að vísindamönnum og samtökum sem koma að þróun bóluefnis. Rússar hafa vísað þessum ásökunum á bug.
En fréttirnar um rússneska bóluefnið hafa vakið upp spurningar. Margir velta fyrir sér hvort bóluefnið, sem er þróað af Gamaleya Institute í Moskvu, sé bæði áhrifaríkt og öruggt og hvort vísindamenn hafi hoppað yfir mikilvæg skref í þróun þess vegna pólitísks þrýstings.
Rússar hafa ekki enn birt nein vísindaleg gögn um prófanir á bóluefninu og gagnrýnendur hafa áhyggjur af að ekki hafi verið gerðar réttar tilraunir með það á fólki.
Rússneskir heimildarmenn segja að bóluefnið verði sent hratt í gegnum allt viðurkenningar- og samþykktarferlið vegna umfangs heimsfaraldursins og þeirra erfiðleika sem eru í Rússlandi við að ná tökum á faraldrinum. Þar í landi hafa rúmlega 820.000 smit greinst og rúmlega 13.600 látist ef marka má opinberar tölur.
Varnarmálaráðuneyti landsins segir að hermenn hafi verið valdir sem fyrstu sjálfboðaliðarnir til prófana á bóluefninu.
Tilraunir með bóluefnið eru enn á öðru stigi en því á að ljúka 3. ágúst. Þá hefst þriðja stig sem fer fram samhliða því að heilbrigðisstarfsfólk verður bólusett.