Heilbrigðisyfirvöld báðu vísindamenn um að reikna út hvernig versta sviðsmyndin gæti orðið. Niðurstaðan er að á milli 24.500 og 251.000 muni látast á breskum sjúkrahúsum af völdum veirunnar. Toppurinn verður væntanlega í janúar og febrúar segir í umfjöllun BBC.
Við útreikningana var ekki tekið tillit til hugsanlegra aðgerða á borð við lokun samfélagsins, eins og gert var í vor, læknismeðferða eða hugsanlegs bóluefnis.
„Þetta snýst ekki um spá heldur hugsanlega niðurstöðu. Það er hægt að draga úr áhættunni ef við bregðumst strax við.“
Sagði Stephen Holgate, sem stýrði verkefninu.
Vísindamennirnir leggja mikla áherslu á að það sé mikil óvissa tengd mögulegri þróun faraldursins næsta vetur. Rannsóknir benda til að veiran þrífist betur við lægra hitastig og að það séu meiri líkur á smiti þegar fólk er mikið innanhúss.