Þessar þrjár milljónir fjölskyldna fá nú kórónuveirukassa sem inniheldur meðal annars hrísgrjón, pasta, olíu og hveiti auk þriggja smokka.
80% þjóðarinnar er kaþólskrar trúar og það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum að smokkar séu settir í kassana. Christian Monckeberg, heilbrigðisráðherra, vísar þeirri gagnrýni á bug og segir að þetta séu smokkar sem væri dreift til heilsugæslustöðva í venjulegu árferði.
Landsmenn geta fengið ókeypis smokka hjá læknum en vegna lokunar samfélagsins hafa margir ekki haft möguleika á að fara til læknis eða hafa ekki þorað út fyrir hússins dyr af ótta við að smitast af kórónuveirunni.
Margir þeirra sem hafa fengið hjálparkassann hafa ekkert á móti því að smokkar séu í þeim. Paz, miðaldra kona í Santiago, sagði brosandi að það væri praktískt fyrir fólk sem notar smokka að fá þá. Önnur kona, mun yngri, sagði í samtali við TVN sjónvarpsstöðina að þrír smokkar væru ekki nóg.
En millistéttin í landinu fær ekki svona hjálparkassa heldur ávísun upp á sem svarar til tæplega 100.000 íslenskra króna. Þetta er gjöf sem er ætlað að létta fólki lífið. Forseti landsins sagði að millistéttin væri stolt landsins og það þyrfti að hjálpa henni.