Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Evrópulögreglunni Europol. Þetta er stærsta mál þessarar tegundar sem Evrópulögreglan hefur fengist við. Handtökurnar áttu sér allar stað á Ítalíu. Í tengslum við málið hefur lögreglan lagt hald á 50 fasteignir, tvær landareignir, 12 bíla, lúxussnekkju og 8 milljónir evra á 22 bankareikningum.
Talið er að glæpagengið hafi starfað í um 20 ár og hafi á þeim tíma prentað rúmlega þrjár milljónir peningaseðla og komið þeim í umferð. Þetta er um 25 prósent af öllum þekktum fölsuðum evru seðlum.
Rannsókn málsins hófst fyrir þremur árum þegar lögreglan í bænum Benevento á Ítalíu lagði hald á falsaða 50 evru seðla. Seðlarnir voru mjög vel úr garði gerðir og var ljóst að þeir höfðu verið gerðir af fagmönnum sem höfðu aðgang að hátæknibúnaði. Höfuðpaurinn er sagður hafa stundað peningafals í rúmlega 20 ár.
Europol segir að glæpagengið tengist skipulögðum glæpasamtökum á Ítalíu.