Þann 26. júní varð öflug sprenging í verksmiðju í Khojir í útjaðri Teheran. Í verksmiðjunni eru framleidd tæki í eldflaugar hersins. Þær eru meðal annars sendar til Hizbollah hryðjuverkasamtakanna í Líbanon. Klerkastjórnin segir að um gassprengingu hafi verið að ræða.
Þann 2. júlí kom upp mikill eldur í úranauðgunarstöðinni Natanz í miðhluta landsins, líklegast í kjölfar sprengingar. Klerkastjórnin hefur viðurkennt að mikið tjón hafi orðið og að kjarnorkuáætlun landsins muni seinka mikið vegna þessa.
Aðfaranótt föstudags varð mikil sprenging í Teheran. New York Times hefur eftir heimildamönnum í Miðausturlöndum að ísraelskir leyniþjónustumenn hafi náð að koma sprengju fyrir í Natanz, sem er sú íranska herstöð sem best er gætt. Þetta setur málið í nýtt samhengi. Er hugsanlegt að skuggastríðið á milli Ísraels og Íran sé komið á nýtt stig?
Bandaríkin hafa dregið sig út úr samningnum við Íran um kjarnorkumál síðarnefnda landsins. Klerkastjórnin er einnig á leið út úr samkomulaginu. Ísraelsmenn hafa heitið því að Íran fái aldrei að eignast kjarnorkuvopn. Ísraelskir hernaðarsérfræðingar ræða reglulega hvort tími sé kominn til að gera árásir á kjarnorkuver og kjarnorkustöðvar Írana.
Sprengingarnar geta að mati sérfræðinga verið merki um að átök ríkjanna séu að magnast. Talið er að fyrir 10 árum hafi Ísrael og Bandaríkin staðið fyrir netárás á Íran þar sem Stuxnet tölvuveirunni var komið í tölvur þar í landi. Með því seinkaði kjarnorkuáætlun Íran um mörg ár. Margir íranskir kjarnorkuvísindamenn hafa látist á dularfullan hátt í gegnum tíðina, verið drepnir.
Íranar réðust á vatnsveitur í Ísrael í apríl og tókst nærri því að eitra vatnið í þeim með klór. Það hefði lamað vatnsdreifingu til tugþúsunda heimila í miðri hitabylgju.