Konan sem seldi vasann, er á níræðisaldri, býr á sveitabæ í Austur-Evrópu en Sotheby‘s hefur ekki viljað upplýsa nánar um hvar. En talsmenn uppboðshússins segja það nánast kraftaverk að vasinn hafi komist óskemmdur í gegnum alla þessa áratugi í sveitinni.
Johan Bosch van Rosenthal, hollenskur ráðgjafi hjá Sotheby‘s, segir frá málavöxtum í myndbandi sem uppboðshúsið hefur birt.
„Konan hringdi og spurði hvort ég gæti komið í heimsókn til að ræða framtíðarhorfurnar varðandi listmunasafn hennar. Ég fór því í langt ferðalag heim til hennar á afskekktan sveitabæ. Þar hitti ég hressa konu á níræðisaldri og hunda hennar og ketti.“
Hann segir að kettirnir hafi stressað hann aðeins, sérstaklega þegar konan leiddi hann inn í herbergi þar sem hún geymdi fjölda kínverskra listmuna sem hún hafði fengið í arf fyrir löngu. Þar hafi kettirnir hoppað og skoppað innan um listmunina. Þeir hafi þó ekki valdið tjóni á mununum. Konan benti honum síðan á vasa sem stóð uppi á skáp. Hún vissi vel að hann væri sérstakur og eins og söluverðið segir til um þá er hann það.
Van Rosenthal er ekki sérfræðingur í kínverskum listmunum en hann áttaði sig strax á að hér væri um eitthvað sérstakt að ræða. Sérfræðingar voru sömu skoðunar en vasinn er frá fyrri hluta átjándu aldar og var framleiddur fyrir Qianlong-keisarann sem ríkti frá 1735-1796. Vasans er getið í skjölum frá þessum tíma.