Sky skýrir frá þessu og vitnar í dómsskjöl og framburð vitna. Þýska lögreglan segir að Christian B. sé grunaður um að hafa myrt Madeleine. Segist þýska lögreglan hafa góð sönnunargögn í málinu en þurfi að afla fleiri. Einnig segir þýska lögreglan að Madeleine sé látin en vill ekki skýra á hverju hún byggir það.
Sky segir að dómsskjöl er varða eldsneytisþjófnað í Algarve 2006, ári áður en Madeleine hvarf, sýni fortíð hans sem barnaníðings. Þegar dómari spurði hann út í fyrri afbrot játaði Christian B. að hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot í Þýskalandi þegar hann var á unglingsaldri. Hann skýrði þó ekki frá að fórnarlambið var barnung stúlka. Dómaranum bar ekki skylda til að afla gagna frá Þýskalandi um sakaferil Christian B. og því var hann ekki settur á skrá portúgölsku lögreglunnar yfir barnaníðinga. Hann var heldur ekki á meðal þeirra þekktu barnaníðinga sem voru yfirheyrðir í tengslum við hvarf Madeleine.
Tíu árum síðar virðist Christian B. aftur hafa sloppið fram hjá portúgölsku lögreglunni þegar hann eyddi síðustu dögum sínum, sem frjáls maður í Portúgal, við að bera sig fyrir tveimur stúlkum á barnaleikvelli. Hann var staðinn að verki af móður annarrar stúlkunnar. Hann var handtekinn en ekki kærður fyrir athæfið. Þessi í stað var hann framseldur til Þýskalands til að afplána dóma vegna kynferðisbrota gegn börnum.