Áður hafði komið fram að WHO hefði fengið tilkynningu um veiruna frá Kína. Tedros Adhanom, yfirmaður WHO, sagði meðal annars á fréttamannafundi 20. apríl að stofnuninni hefðu borist tilkynningar um veiruna frá Kína.
En miðað við nýja og uppfærða tímalínu á heimasíðu WHO þá komst starfsfólk WHO sjálft á snoðir um veiruna, kínversk yfirvöld tilkynntu ekki um hana.
WHO uppfærði í síðustu viku tímalínu fyrir atburðarásina í tengslum við heimsfaraldurinn sem braust út í Wuhan í desember. Í gömlu tímalínunni kom fram að þann 31. desember hafi starfsfólk WHO í Kína tilkynnt um nokkur tilfelli veirusýkingar, sem veldur lungnabólgu, í Wuhan. Í kjölfarið var nýja kórónuveiran greind.
Í uppfærðri útgáfu tímalínunnar kemur fram að starfsfólk WHO í Kína hafi séð fréttatilkynningu á heimasíðu heilbrigðisnefndar Wuhan um tilfelli „smitandi lungnabólgu“. Því næst tilkynnti skrifstofan í Kína þetta til höfuðstöðva WHO.