Könnunin, sem framkvæmd var á vegum Centre for Countering Digital Hate (CCDH), sem er stofnun sem berst gegn útbreiðslu haturs á Internetinu, kemur út á sama tíma og skýrsla um útbreiðslu áróðurs gegn bólusetningum.
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að þeir, sem treystu á upplýsingar í gegnum samfélagsmiðla frekar en í gegnum hefðbundnar leiðir, voru ólíklegri til þess að segjast ætla að láta bólusetja sig.
Þátttakendur í könnuninni voru 1663, 6% þeirra sögðust alls ekki vilja láta bólusetja sig. 10% sögðu að þeir myndu sennilega ekki láta bólusetja sig og 15% svarenda voru óvissir. Alls voru um 69% af þeim sem svöruðu líkleg til þess að nýta sér bóluefnið, 38% sögðust ætla að láta bólusetja sig og 31% sögðust sennilega ætla að nýta sér bóluefnið.
Vísindamenn telja að það þurfi að bólusetja um þrjá fjórðu hluta mannkyns til þess að hægt verði að bæla sjúkdóminn niður og vekja þessar tölur því áhyggjur. Samkvæmt CCDH njóta síður og stöðvar sem hvetja fólk til að sniðganga bólusetningar aukinna vinsælda á samfélagsmiðlum.
Skoðaðir voru um 400 “anti-vax” Facebook hópar og síður, YouTube stöðvar og síður á Twitter og Instagram. Í ljós kom að þar eru birtar samsæriskenningar sem eiga sér engan fót í raunveruleikanum, þar á meðal kenning um það að Bill Gates hafi skapað kórónuveirufaraldurinn, að bóluefni valdi COVID-19 og að prófanir á bóluefni gegn vírusnum hafi gert konur ófrjóar.