Þetta kemur illa við Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook. Því á föstudaginn lækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um 8,3% eftir að Unilever tilkynnti að fyrirtækið muni ekki auglýsa meira á Facebook á þessu ári.
Bloomberg skýrir frá þessu. Markaðsvirði Facebook lækkaði um 56 milljarða dollara í kjölfarið og þar með rýrnaði eignarhlutur Zuckerberg um 7,2 milljarða dollara en það svarar til um 1.000 milljarða íslenskra króna. Hann féll úr þriðja sætinu, yfir ríkustu menn heims, niður í það fjórða við þetta.
Fyrirtækin, sem hafa hætt að auglýsa á Facebook, telja að miðillinn geri ekki nóg til að stöðva hatursorðræðu og streymi rangra upplýsinga.
Zuckerberg hefur nú ákveðið að Facebook muni banna auglýsingar sem lýsa mismunandi þjóðfélagshópum, á grunni uppruna þeirra eða samfélagsstöðu, sem ógn. Einnig verða færslur stjórnmálamanna og annarra fjarlægðar ef þær hvetja til ofbeldis eða eiga að hafa áhrif á kjörsókn.