Það varð Abbas að falli að hann gat ekki stillt sig um að monta sig af lífsstíl sínum á samfélagsmiðlum. Hann var með 2,4 milljónir fylgjenda á Instagram þar sem hann hafði árum saman stært sig af því lúxuslífi sem hann lifði. Notendanafn hans var „Hushpuppi“. The Times skýrir frá þessu.
Dýrir bílar, einkaþotur og þekktar stjörnur voru nær daglegt brauð á Instagramsíðu hans og byggði upp ímynd sem maður sem hafði brotist til efna af eigin dáðum. Hefði unnið sig upp frá að selja fatnað í Nígeríu í að selja fasteignir í Dubai. En nú eru komnir brestir í glansmyndina.
Abbas, sem er 38 ára, var handtekinn í Dubai og gefið að sök að hafa tekið þátt í internetsvindli upp á 350 milljónir punda en það svarar til um 60 milljarða íslenskra króna.
Lögreglan lagði hald á verðmæti upp á sem svarar til um 5 milljarða króna hjá Abbas, þar á meðal fjölda lúxusbíla, reiðufé og bankainnistæður.
Lögreglan telur að Abbas hafi notað lúxuslífsstíl sinn til að lokka fólk um allan heim til að veita upplýsingar um greiðslukortanúmer sín til fólksins á bak við svikastarfsemina. The Times segir að lögreglan hafi fundið netföng tæplega tveggja milljóna hugsanlegra fórnarlamba hans í símum og tölvum hans.
FBI hefur farið fram á að Abbas verði framseldur til Bandaríkjanna því mörg af fórnarlömbum hans eru bandarísk.