Þeir voru fundnir sekir um að hafa myrt mann fimmtudag einn í nóvember 2017 en morðið var afleiðing átaka glæpagengja. Dómurinn í síðustu viku var kveðinn upp af Eystri Landsrétti sem staðfesti þar með dóm undirréttar um þyngd refsingarinnar.
Fram kemur að mennirnir hafi komið akandi á mótorhjóli að bíl mannsins á Norðurbrú. Þeir stefndu beint á bílinn og annar þeirra steig af hjólinu og skaut sjö skotum á bílinn með hálfsjálfvirkri skammbyssu.
Þrír voru í bílnum, þar á meðal Ghassan Ali Hussein, sem fékk skot í höfuðið og bak. Hann lést skömmu síðar af völdum skotsáranna. Annar farþegi fékk skot í handlegginn en sá þriðji náði að komast ósærður út úr bílnum.
Undirréttur hafði sakfellt Khidhir og Merei fyrir að hafa reynt að drepa þá tvo sem sluppu lifandi en Eystri Landsréttur taldi ekki sannað að þeir hefðu reynt að drepa þann þriðja.
Lögreglan telur ekki að hinn myrti eða hinir tveir hafi verið félagar í glæpagengi.
Eystri Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að morðið hafi tengst átökum glæpagengja og því var dómurinn kveðinn upp í samræmi við þá grein hegningarlaganna sem snýr að glæpagengjum en það þýðir að refsingin er þyngri en ella.