Tveir starfsmenn kosningabaráttu Trump, til viðbótar við þá sex sem greindust fyrir helgi, hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Starfsmennirnir voru viðstaddir kosningafundinn í Tulsa um síðastliðna helgi, en sagt er að þeir hafi verið með andlitsgrímur allan tímann.
Á meðan unnið er að því að koma efnahagslífinu í gang aftur, eftir lokanir vegna COVID-19, í Bandaríkjunum, fjölgar smitum mikið í mörgum af fylkjunum. Fylkin Flórída, Arizona, Alabama, Louisiana, Texas og Suður-Karólína hafa orðið harðast úti.
Á mánudag var tala smitaðra í Flórída komin yfir 100.000, en síðastliðinn mánuð hefur samfélagið verið opnað aftur. Í Houston í Texas hafa innlagnir vegna COVID-19 þrefaldast síðan 25. maí. Samtals liggja nú rúmlega 1.400 sjúklingar með COVID-19 á átta sjúkrahúsum í borginni og óttast er að innan þriggja vikna verði sjúkrahúsin yfirfull.
Landsfundur repúblikanaflokksins verður haldinn í Flórída seinna í sumar. Donald Trump flutti fundinn frá Jacksonville til Charlotte, eftir að ríkisstjóri Norður Karólínu krafðist áætlunar um það hvernig hefta ætti útbreiðslu kórónuveirunnar á fundinum, en gert er ráð fyrir að þúsundir flokksmanna komi saman.
Samkvæmt Johns Hopkins eru ný tilfelli af kórónuveirusmitum nú um 26.000 á dag í Bandaríkjunum, sem er aukning frá um 21.000 tilfellum á dag fyrir tveimur vikum síðan. Alls hafa yfir 2,2 milljónir smita greinst í Bandaríkjunum og 122.000 hafa látist.