Rannsóknir sænska heilbrigðisyfirvalda sýna til dæmis að veiran hafi ekki bara borist til landsins með fólki sem fór í skíðaferðalög til Ítalíu og Austurríkis. Margir Svíar hafa nefnilega smitast af kórónuveiru sem barst frá New York. Þetta er byggt á rannsóknum á erfðamengjum veirunnar. Johan Carlson, forstjóri sænsku lýðheilsustofnunarinnar, sagði í samtali við Dagens Nyheter að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki verið nægilega vakandi fyrir smiti frá mörgum löndum.
„Augu okkar beindust að ferðamönnum frá Ítalíu en í dag vitum við að smitið kom frá öðrum löndum sem við veittum ekki athygli.“
Hann sagði einnig að það hafi verið frekar auðvelt að finna þá Svía sem höfðu verið í skíðaferðum á Ítalíu. Þetta hafi yfirleitt verið vel menntað fólk frá Stokkhólmi og það hafi fylgst vel með fréttum. Þetta hafi orðið til þess að annar hópur fór fram hjá sjónum yfirvalda. Í honum hafi verið þeir Svíar sem höfðu ferðast víða um heim og sérstaklega til landa þar sem ekki var vitað að veiran væri á kreiki.
Norsk heilbrigðisyfirvöld hafa birt niðurstöður fyrstu rannsóknar sinnar á hvaðan veiran, sem hefur herjað á Noreg, er upprunninn. Fyrstu niðurstöður benda til að fjögur afbrigði, hið minnsta, af veirunni séu í Noregi. Eitt frá Ítalíu og þrjú frá Austurríki. Einnig hafa verið staðfest afbrigði sem bárust frá Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum.