Rannsókn leiddi í ljós að um er að ræða egg með mjúkri skurn. Því var verpt af útdauðri tegund sæslöngu eða eðlu fyrir 68 milljónum ára. Þetta er stærsta egg, með mjúkri skurn, sem fundist hefur. Lucas Legendre, sem vann að rannsókninni, segir að niðurstaðan bindi enda á áratuga langar vangaveltur um uppruna steingervingsins. Hann sagði mjög óvenjulegt að egg, með mjúkri skurn, finnist svo vel varðveitt. Þetta sé stærsta slíka eggið sem fundist hefur en ekki hafi verið vitað að svona egg gætu orðið svona stór. Það veiti líklega einstaka innsýn í hvernig umrædd dýr fjölguðu sér.
Eggið fannst 2011 á Suðurskautslandinu en það voru vísindamenn frá Chile sem fundu það. Það er 28×18 sentimetrar. Til samanburðar má geta þess að venjulegt hænuegg er um 5×4 sentimetrar. Egg strúts er að meðaltali 15×13 sentimetrar.
Til er stærra egg en þetta en það fannst á Madagaskar og er frá ófleygri strútategund sem dó út á sautjándu öld. Það er aðeins stærra en er með harðri skurn.