Nú óttast yfirvöld að önnur bylgja faraldursins sé skollin á. Þann 11. júní var fyrsta smitið í tvo mánuði staðfest í Peking. Síðan hafa 137 smit verið staðfest. Mörg þeirra hafa verið rakin til Xinfadi-markaðarins í borginni. Frá 30. maí hafa 200.000 manns lagt leið sína þangað. Bloomberg skýrir frá þessu og segir jafnframt að veiran hafi nú þegar borist til nágrannabyggða Peking.
Þetta er mikið áfall fyrir yfirvöld sem höfðu lýst yfir sigri í baráttunni við veiruna og opnað vinnustaði á nýjan leik. Nú verður að taka skref aftur á bak í baráttunni við veiruna.
Ákveðið hefur verið að loka skólum í borginni sem og íþróttamannavirkjum. Einnig hafa ákveðin hverfi í borginni verið sett í sóttkví, það eru hverfi þar sem talið er að smithættan sé mikil eða í meðallagi mikil. Margir hafa einnig verið beðnir um að vinna heima á næstunni.
Kínverjar geta tekið sýni úr 90.000 manns á sólarhring og nú eru tekin um 70.000 sýni á sólarhring í Peking. Wu Zuyou, sóttvarnarlæknir landsins, sagði í vikunni að niðurstaðan úr þessum sýnatökum muni skera úr um hvort nýr faraldur sé hafinn í borginni.
Zeng Guang, háttsettur sérfræðingur hjá heilbrigðisyfirvöldum landsins, telur að miklar líkur séu á ”væg önnur bylgja” sé skollin á.