Boston News skýrir frá þessu.
Þessi 33 ára maður er félagi í klaustursfélagi búddista og fór í þessa einangrun til að geta einbeitt sér að trúariðkun sinni. Hann vissi vel af kórónuveirunni þegar hann lokaði sig frá umheiminum um miðjan mars en þá voru aðeins rúmlega 1.000 smit staðfest í Bandaríkjunum. Þegar hann sneri aftur til byggða var búið að staðfesta rúmlega 1,5 milljónir smita í Bandaríkjunum.
„Ég hugsaði með mér: „Verður þetta eins og í Mad Max? Erum við þau síðustu á lífi? Hvernig gengur mannkyninu?“
Hefur Boston News eftir honum um hugleiðingar hans í einangruninni en þar lagði hann stund á hugleiðslu.
Hann sagði að sér hafi því létt þegar hann sneri til byggða og labbaði fram hjá bensínstöð þar sem fólk var á ferli. En það runnu á hann tvær grímur þegar hann gekk inn í stórmarkaðinn. Hann þekkti nefnilega ekki til hugmyndafræðinnar um að fólk ætti að halda sig fjarri öðru fólki. Hann skildi því ekkert í því hvað fólk hélt um hann þegar það nánast stökk til hliðar þegar hann kom gangandi. Hann tók einnig eftir því að fólk horfði mikið í kringum sig, eins og það væri alltaf að leita að einhverri hættu.