Á fimmtudaginn sagði Raab að Bretar væru reiðubúnir til að veita 300.000 Hong Kong-búum breskan ríkisborgararétt. Á föstudaginn sagði breska innanríkisráðuneytið að tilboðið myndi gilda fyrir alla þá sem bjuggu í Hong Kong fyrir 1997 og eru með bresk vegabréf. Þetta eru mun fleiri en þeir 300.000 sem Raab ræddi um því þetta gildir um 2,9 milljónir Hong Kong-búa að sögn breska innanríkisráðuneytisins.
Priti Patel, innanríkisráðherra, sagði að ef Kínverjar láta verða af því að láta þessi lög taka gildi muni bresk stjórnvöld kanna möguleikann á að heimila öllum þeim sem eru með bresk nýlenduvegabréf að sækja um heimild til að vera í Bretlandi og hefja þannig vegferðina að breskum ríkisborgararétti.
„Við munum halda áfram að verja réttindi og frelsi íbúa í Hong Kong.“
Þingið í Peking samþykkti á fimmtudaginn ný öryggislög fyrir Hong Kong sem eiga að sögn kínverskra yfirvalda að taka á „öllum því er ógnar þjóðaröryggi alvarlega“ í Hong Kong. Lögin fóru ekki fyrir þing Hong Kong og því eru kínversk stjórnvöld að grípa fram fyrir hendur þings Hong Kong en mótmælendur hafa mánuðum saman mótmælt skerðingu lýðræðis í ríkinu. Hong Kong hefur notið sjálfsstjórnar upp að vissu marki og almenningur hefur meiri lýðræðisleg réttindi þar en annarsstaðar í Kína en nú er kommúnistaflokkurinn að herða tök sín á landinu.
Hong Kong fékk sérstaka stöðu innan Kína samkvæmt samningi Kínverja og Breta um yfirtöku Kína á Hong Kong 1997. Sú sérstaka staða átti að gilda í 50 ár en margir telja að nú séu Kínverjar að ganga á bak orða sinna.