Þegar hann var 16 ára þótti stefna í að hann yrði stórstjarna. Hann var meistari í U18 í bæði einliða- og tvíliðaleik. Hann sigraði meðal annars Marat Safin og Fernando Gonzalez, sem urðu síðar þekktar tennisstjörnur, og Roger Federer laut einnig í lægra haldi fyrir honum. Nikola var ekki bara talinn einn efnilegasti tennisleikarinn í Serbíu heldur í heiminum.
„Allir spáðu að ég yrði á topp tíu.“
Sagði Nikola við Blic. En þannig fór það ekki. Hann náði ekki að hasla sér völl í tennis fullorðinna og náði aðeins inn á topp áttahundruð og verðlaunaféð var ekki mikið, 4.000 dollarar.
„Ég skuldaði peninga og átti í miklum vanda með fíkniefni. Ég byrjaði að stela til að fjármagna fíkniefnakaup. Ég reyndi að halda áfram að spila tennis en það gekk ekki vel. Fjölskylda mín var einnig að leysast upp og líf mitt var í algjörri upplausn.“
Á næstu árum var hann lagður rúmlega tíu sinnum inn á sjúkrahús og á síðustu sautján árum segist hann hafa gengið í gegnum allan þann hrylling sem fylgir eiturlyfjum.
Hann er nú laus undan oki fíkniefnanna og reynir nú að sjá fyrir sér með því að þjálfa börn í tennis. Draumur hans er að skapa næstu stórstjörnu. Hann er þó ekki alveg laus undan fortíðinni því hún fylgir honum við hvert fótmál.
„Fyrrum leikmenn og félagar segja foreldrunum að ég sé fyrrum fíkniefnaneytandi og að þeir eigi ekki að leyfa börnunum að sækja kennslu hjá mér. Ég ég hef aldrei selt fíkniefni, ekki einu sinni þegar verst lét, og ég myndi aldrei gefa börnum fíkniefni. Frekar myndi ég skera höndina af mér.“