Í umfjöllun Dagbladet kemur fram að meintir mannræningjar hafi sett sig í samband við fjölskyldu Anne-Elisabeth síðasta sumar og haldið því fram að hún væri enn á lífi. Síðan hefur ekkert heyrst frá þeim. Lögmaður Hagen-fjölskyldunnar boðaði til fréttamannafundar og skýrði frá því að hinir meintu mannræningjar hefðu látið heyra í sér.
Á fréttamannafundinum sagði lögmaðurinn að það hafi komið skýrt fram hjá hinum meintu mannræningjum að Anne-Elisabeth væri á lífi. Þetta var skömmu eftir að lögreglan hafði tilkynnt að hún teldi enga von um að finna Anne-Elisabeth á lífi og að nú væri málið rannsakað sem morðmál.
Margir hafa furðað sig á tímasetningu þessarar tilkynningar frá fjölskyldunni og ekki dró úr vangaveltunum eftir að Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth, var handtekinn grunaður um aðild að hvarfi hennar og jafnvel morði.
Dagbladet segir að í upphafi hafi 90 milljóna norskra króna verið krafist í lausnargjald en í samskiptunum við hina meintu mannræningja hafi þeir komið með nokkrar tillögur um upphæðina og hvernig væri hægt að greiða hana, jafnvel að hún yrði greidd í nokkrum afborgunum.
Dagbladet segir að ein þeirra upphæða, sem rædd var, hafi verið jafn há og sú upphæð sem Tom Hagen millifærði síðar í rafmyntinni Monero í þeirri von að lögreglan gæti rakið slóð peninganna og þannig komist að hver eða hverjir stóðu að baki hvarfi eiginkonu hans. Lögreglan, bæði sú norska og víða um heim, fylgdust með millifærslunni en tókst ekki að fylgja henni til móttakandans.
TV2 segir að það hafi einnig vakið athygli að daginn sem Anne-Elisabeth hvarf hafi verið hringt rúmlega tuttugu sinnum í síma hennar. Flestum hringingunum var ekki svarað. Nokkrar hringinganna þykja athyglisverðari en aðrar, þar á meðal sú næstsíðasta áður en Anne-Elisabeth hvarf. Þá ræddi hún við starfsmann eiginmanns síns, að sögn um launagreiðslur og tímaskráningar. Samtalið varði í um 10 mínútur og eftir það ræddi hún í síma við ættingja sinn, eftir það hvarf hún. Það símtal hófst klukkan 09.14 að morgni 31. október 2018. Klukkan 09.48 hringdi iðnaðarmaður í hana en hún svaraði ekki. Því næst reyndi ættingi hennar, sá sami og hún ræddi við klukkan 09.14, að hringja í hana en hún svaraði ekki.
TV2 segir að símtölin séu meðal þeirra mikilvægu þátta málsins sem lögreglan rannsakar. Í heildina var 14 hringingum í síma Anne-Elisabeth ekki svarað frá klukkan 09.14 til 14.10 þegar eiginmaður hennar hafði samband við lögregluna. Átta af hringingunum voru frá honum en hann segist hafa fyllst áhyggjum þegar hún svaraði ekki og hafi því flýtt sér heim til að kanna með hana. Hann liggur undir grun um að vera viðriðin hvarf hennar.