Í einum þáttanna kemur fram að Jordan hafi slegið liðsfélaga sinn Steve Kerr í andlitið þegar þeir voru í æfingabúðum 1995. Þeim lenti þá saman, ekki í fyrsta sinn en aldrei fyrr höfðu deilur þeirra farið svona úr böndunum.
Neesham var í æfingasalnum ásamt samlanda sínum Neale Daniher að fylgjast með æfingum Bulls en Luc Longley, leikmaður Bulls, hafði boðið þeim að vera viðstaddir. Longley er einnig frá Ástralíu.
Neesham getur ekki enn þann dag í dag skýrt frá hvað gerðist á æfingunni vegna einhvers sem gerðist í kjölfarið.
„Það komu upp aðstæður og síðan kom Michael Jordan til okkar og sagði: „Þið Ástralir.“ Við horfðum á hann og hann sagði: „Þið sáuð ekkert.“ Ég er því á vissan hátt bundinn af því að hann sagði við okkur að við hefðum ekki séð neitt.“
Sagði Neesham í samtali við SEN Breakfast. Það spilar einnig inn í þetta að Neesham vill ekki skaða Longley, sem fékk leyfi fyrir þá til að vera viðstaddir æfinguna, en mjög óvenjulegt var að óviðkomandi fengju að fylgjast með æfingum liðsins.