Vandinn var hins vegar sá að maðurinn hafði ekki verið að verki. CNN skýrir frá þessu. Hann bugaðist undan þrýstingi lögreglunnar og fann sig knúinn til að játa ódæðisverkið á sig til að yfirheyrslurnar tækju enda. Í lok síðasta árs játaði síðan annar maður að hafa myrt stúlkuna. Saklausi maðurinn var dæmdur í 20 ára fangelsi og hafði lokið afplánun þegar hinn maðurinn játaði morðið á sig.
CNN segir að allt hafi þetta hafist í byrjun níunda áratugarins í Hwaseong þegar konur, ungar sem gamlar, voru myrtar. Ekki tókst að finna morðingjann. Fyrrnefnd stúlka var áttunda fórnarlambið í því sem hefur verið nefnt „morðin í Hwaseong“.
Eins og DV skýrði frá í gær telur lögreglan sig nú hafa upplýst flest morðanna. Þau játaði Lee Chun-jae á sig. Lífsýni úr honum fundust á þremur kvennanna. Hann situr nú þegar í fangelsi og afplánar lífstíðarfangelsisdóm fyrir að hafa nauðgað og myrt mágkonu sína 1994.