Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur gefið grænt ljós á að geimfararnir Robert Behnken og Douglas Hurley fari með Dragon geimfari SpaceX út í geim á miðvikudaginn. Þetta verður sögulegt geimskot því þetta er í fyrsta sinn síðan í apríl 1981 sem NASA prófar nýtt mannað geimfar. Síðast var það geimferjan Columbia sem var prófuð þegar hún fór í fyrstu ferð sína.
Í tilkynningu á Twitter skrifar NASA að undirbúningi geimskotsins sé lokið og að grænt ljós hafi verið gefið á geimskotið. Efasemdir höfðu verið uppi um að af því yrði, sérstaklega vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Bæði Behnken og Hurley eru vanir geimfarar en þeir fóru áður út í geim með geimferjum NASA.