Dagbladet segir að einnig hafi fundist smávegis blóð úr Tom á tveimur stöðum í húsinu. Það hafi verið þessir blóðblettir sem urðu til að grunsemdir lögreglunnar, um að Tom hefði átt hlut að máli varðandi hvarf Anne-Elisabeth, styrktust enn frekar.
Svein Holden, verjandi Tom, hefur frá upphafi dregið gildi þessara blóðdropa í efa og þegar hann áfrýjaði gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Tom til æðra dómsstigs benti hann á að ekki væri hægt að nota blóðdropana sem sönnunargagn um aðild Tom að hvarfi og/eða morðinu á Anne-Elisabeth. Ástæðan fyrir því var að hans sögn að lögreglan vinnur út frá þeirri kenningu að Tom hafi ekki komið sjálfur að málinu hvað varðar líkamlega þáttinn, þ.e.a.s. að vera á vettvangi þegar Anne-Elisabeth var numin á brott.
Hann benti auk þess á þá staðreynd að Tom var í vinnunni þegar Anne-Elisabeth hvarf og það hafa mörg vitni staðfest. Af þessum sökum hljóti blóðblettirnir að vera frá einhverjum öðrum tíma og því ekki tengdir því sem gerðist í húsinu að morgni þessa örlagaríka dags.
Áfrýjunardómstóll tók þetta til greina og felldi gæsluvarðhaldsúrskurðinn úr gildi og þá ákvörðun staðfesti Hæstiréttur.