Í beinni útsendingu, sem var ætluð bandarískum mennta- og háskólum, aðallega svörtum nemendum, gagnrýndi Obama viðbrögð bandarískra stjórnvalda við heimsfaraldrinum. Í tveggja tíma útsendingu sagði Obama meðal annars að margir embættismenn vissu einfaldlega ekki hvað þeir væru að gera.
„Margir þeirra þykjast ekki bera ábyrgð.“
Sagði hann meðal annars en nefndi engin nöfn.
CNN sjónvarpsstöðin, sem er gagnrýnin á Trump og störf hans, segir að ummæli Obama séu harðasta gagnrýnin sem hann hefur beint að Trump í tengslum við heimsfaraldurinn.
Obama sagði einnig að faraldurinn hafi varpað skýru ljósi á ójöfnuð þann sem ríkir á milli kynþátta í Bandaríkjunum.
„Sjúkdómur sem þessi varpar ljósi á undirliggjandi ójöfnuð og auka byrðar sem samfélag svartra hefur þurft að glíma við í gegnum söguna í Bandaríkjunum.“
Sagði Obama í útsendingunni sem var sýnd á YouTube, Facebook og Twitter.
Ummæli hans eru vísbending um að hann ætli að taka virkan þátt í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í byrjun nóvember. Hann sagði námsmönnunum einmitt að hann ætli „að eyða eins miklum tíma og hann geti í kosningabaráttu“ Joe Biden.
Trump hefur ekki tekið gagnrýni Obama vel og hefur gripið til þeirra aðgerða sem hann virðist hrifnastur af, að ráðast beint að fólki en hann hefur látið tístum rigna á Twitter að undanförnu þar sem hann veitist að Obama með einum eða öðrum hætti.