Í umfjöllun CNN um málið kemur fram að í mars hafi kreditkortaskuldir skyndilega tekið nýja stefnu og lækkað og hafi ekki lækkað jafn mikið í prósentum í rúmlega 30 ár. Þetta og fleira á rætur að rekja til heimsfaraldursins og þess umróts sem hann hefur valdið í bandarísku efnahagslífi.
Viðbrögð fólks eru rökrétt í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir en þau stefna einnig bata efnahagslífsins í hættu því bandarískt efnahagslíf er að stórum hluta knúið áfram af einkaneyslu.
Rúmlega 33 milljónir manna hafa skráð sig atvinnulausa síðan um miðjan mars og hagfræðingar segja að mörg ár muni líða þar til vinnumarkaðurinn verður kominn í það horf sem hann var í fyrir heimsfaraldurinn.
Atvinnuleysi mældist 14.7% í apríl og hefur staðan ekki verið verri síðan í kreppunni miklu. Viðbúið er að fleiri missi vinnuna á næstunni og má segja að bandarískir neytendur séu að búa sig undir enn erfiðari tíma.