Í umfjöllun Dagens Nyheter um málið kemur fram að nú sé orðið erfitt að finna langtímastæði fyrir flugvélar. Singapore Airlines greip til dæmis nýlega til þess ráðs að fljúga fjórum Airbus A380 þotum sínum, það eru stærstu farþegaflugvélar heims, út í áströlsku Simpson eyðimörkina til að geyma þær þar. Af 200 flugvélum félagsins eru aðeins 10 í notkun þessa dagana.
Fleiri flugfélög hafa einnig gripið til þess ráðs að fljúga vélum sínum til Ástralíu til að geyma þær í þurrum eyðimörkunum. Tímaritið Traveller segir að flugvélar, að verðmæti sem nemur um 700 milljörðum íslenskra króna, standi nú í miðhluta Ástralíu, séu þar í geymslu.
Það eru auðvitað til mörg hundruð flugvellir og aðrir staðir til að geyma flugvélar á þegar þær eru ekki í notkun í langan tíma en eyðimerkur henta einna best vegna þess hversu þurrt loftið þar er sem gerir að verkum að flugvélarnar verða ekki fyrir rakaskemmdum.
Stærstu geymslusvæði flugvéla í Bandaríkjunum eru til dæmis í Victorville í Kaliforníu og Roswell í Nýju Mexíkó. Þar eru nú um 400 vélar á hvorum stað. Það er ekki ókeypis að geyma vélarnar því daggjöld eru innheimt.
Ekki er að sögn hægt að geyma vélarnar lengur en í tvö ár án þess að þær byrji að eyðileggjast og er þá miðað við að viðhaldi sé sinnt á meðan.