Bloomberg News skýrir frá þessu. Fram kemur að Cuomo muni í dag skýra nánar frá hvernig og hvenær verður byrjað að slaka á þeim hömlum sem hafa verið settar í ríkinu vegna faraldursins. Hann hafði áður látið hafa eftir sér að ekki yrði byrjað að slaka á takmörkununum fyrr en 15. maí í fyrsta lagi.
Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum þá hafa 26.641 látist af völdum COVID-19 í New York. Ríkið er því það ríki Bandaríkjanna sem hefur orðið verst úti í faraldrinum. Í nágrannaríkinu New Jersey hafa næstflestir látist af völdum sjúkdómsins eða 9.300.
Á laugardaginn létust 226 af völdum sjúkdómsins í New York og 207 í gær eins og fyrr segir. Þetta var tíunda daginn í röð sem dauðsföllin voru á milli 200 og 300.
Innlögnum á sjúkrahús hefur einnig fækkað og sjúklingum á gjörgæsludeildum hefur einnig fækkað. Það er því að sjá sem faraldurinn sé á undanhaldi í ríkinu. Um helmingur 19 milljóna íbúa þess býr í New York borg þar sem meirihluti dauðsfallanna hefur átt sér stað, stór hluti þeirra á dvalarheimilum aldraðra og sjúkra. Frá 1. mars hafa tæplega 5.400 íbúar á dvalarheimilum í New York látist af völdum COVID-19. Þetta er um 20% af dauðsföllunum í ríkinu.