Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn tengist Tom Hagen, eiginmanni Anne-Elisabeth, sem situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að hvarfi hennar og jafnvel morði. Sá sem var handtekinn í gærkvöldi er sagður kunnáttumaður á sviði tölvutækni og rafmynta. Lausnargjalds var krafist fyrir Anne-Elisabeth, sem hvar í lok október 2018, og átti að greiða það í rafmynt.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið handtekinn fyrr en til stóð vegna úrskurðar Lögmannsréttarins í gær en hann úrskurðaði þá að Tom Hagen skuli látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Lögreglan segir að grípa hafi þurft til handtökunnar til að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt. Ekki sé útilokað að fleiri verði handteknir.
Úrskurður Lögmannsréttarins verður tekinn fyrir af Hæstarétti í dag en Hagen var ekki látinn laus í kjölfar úrskurðarins í gær þar sem lögreglan áfrýjaði honum strax til Hæstaréttar. Lögmannsrétturinn klofnaði í afstöðu sinni.