Orðrómur um þetta fór af stað þegar leiðtoginn lét sig vanta við hátíðarhöld þann 11. apríl þegar afmæli afa hans, sem stofnaði Norður-Kóreu, var fagnað en þetta er einn af stærstu hátíðisdögunum í landinu.
Yfirvöld í Suður-Kóreu voru allan tímann full efasemda um sannleiksgildi sögusagna um að leiðtoginn væri látinn eða svifi á milli heims og helju í kjölfar hjartaaðgerðar. Ástæðan var að ekkert óeðlilegt var á seyði í Norður-Kóreu. Svo virðist sem sunnanmenn hafi haft rétt fyrir sér því Kim Jong-un birtist, eins og fyrr sagði, í síðustu viku og var ekki annað að sjá en hann væri hinn hressasti.
Samkvæmt frétt The Washington Post þá afhenti suður-kóreska leyniþjónustan þingi landsins skýrslu í gær um málið. Í henni kemur að sögn fram að leyniþjónustan telji ekkert hæft í að leiðtoginn hafi gengist undir hjartaaðgerð. Hann hafi sinnt embættisverkum eins og venjulega á þeim tíma sem ekkert sást til hans.
Leyniþjónustan telur að ástæðan fyrir hvarfi leiðtogans sé að hann óttist kórónuveiruna, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Yfirvöld í Norður-Kóreu staðhæfa að engin smit hafi greinst þar í landi en hafa jafnframt sagt að þau taki málinu af mikilli alvöru.
Leyniþjónustan útilokar ekki að smit hafi komið upp í Norður-Kóreu og það vakti athygli þegar leiðtoginn birtist í síðustu viku að nær allir aðrir en hann voru með andlitsgrímur.
The Washington Post segir að Kim Jong-un hafi látið sig hverfa nokkrum sinnum áður á árinu. Hann lét til dæmis ekki sjá sig í þrjár vikur í byrjun árs og í 13 daga um miðjan febrúar. Hann er sagður hafa sýnt sig 17 sinnum opinberlega það sem af er ári en á undanförnum árum hefur hann að meðaltali sýnt sig opinberlega 50 sinnum á ári.