Föstudaginn 24. apríl síðastliðinn voru 30 ár liðin frá því að geimsjónaukanum Hubble var skotið út í geim. Til að minnast þessara tímamóta hefur bandaríska geimferðastofnunin NASA sett nýja vefsíðu á laggirnar þar sem áhugasamir geta leitað að myndum teknum af Hubble. Hægt er að leita eftir ákveðnum dagsetningum og því upplagt að leita að myndum sem sjónaukinn tók á afmælisdögum eða öðrum sérstaklega minnisverðum dögum.
Eins og gefur að skilja þá tók Hubble tugþúsundir ljósmynda á þessum þrjátíu árum og þær eru ekki allar aðgengilegar á vefnum heldur hafa starfsmenn NASA valið 366 bestu myndirnar.
NASA hvetur fólk til að deila myndunum á samfélagsmiðlum og nota myllumerkið #Hubble30.