Við útreikninga sína hafði Wennergren meðal annars til hliðsjónar hversu margir hafa látist í öðrum löndum, hversu mikið veiran hefur dreift sér, hverjir muni væntanlega smitast og getu sænska heilbrigðiskerfisins til að annast alvarlega veikt fólk.
Í samtali við Sænska ríkisútvarpið sagði Wennergren að ef öll þjóðin smitast muni á milli 20.000 og 40.000 manns látast. Hann sagðist þó telja, miðað við núverandi ástand, að um helmingur þjóðarinnar smitist og dauðsföllin verði á milli 10.000 og 20.000.
Útreikningar Britton byggjast á tölum heilbrigðisyfirvalda um fjölda smita í Stokkhólmi fyrir um þremur vikum. Þær bar hann síðan saman við hversu margir hinna smituðu létust á næstu þremur vikum en það líða oftast um þrjár vikur frá smiti þar til fólk deyr. Niðurstaða hans er að dánartíðnin sé um 0,4 prósent. Hann segist því telja að á bilinu 8.000 til 10.000 muni látast af völdum sjúkdómsins.