The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að grunsemdir hafi vaknað um að dauðsföllin séu af völdum kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Borgaryfirvöld neita því og segja að um inflúensu sé að ræða. Læknar í borginni hafa þó áhyggjur af að hér sé um dauðsföll af völdum COVID-19 að ræða.
Ríkisstjórn landsins hefur lofað að veita borgaryfirvöldum nauðsynlegan stuðning.
Í fyrradag höfðu aðeins 32.138 tilfelli COVID-19 verið staðfest í Afríku og 1.438 dauðsföll. En þar sem innviðir margra samfélaga eru lélegir og takmarkaðir möguleikar á að taka sýni úr fólki þá eru þessar tölur væntanlega miklu hærri. Þróun mála í Kano síðustu daga bendir til að stórir faraldrar kórónuveiru séu nú í Afríku.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur varað við því að 10 milljónir Afríkubúa geti látist af völdum COVID-19 á næstu þremur til sex mánuðum. Þó sé hægt að lækka þessa tölu mikið ef yfirvöldum tekst að halda aftur af útbreiðslu veirunnar.
Nígerísk yfirvöld hafa lofað að í þessu fjölmennasta ríki álfunnar verði tekin sýni úr fólki, það fái viðeigandi læknismeðferð og verði sett í einangrun. Þetta gengur þó hægt því aðeins hafa verið tekin um 10.000 sýni í landinu. 1.182 smit hafa verið staðfest og 35 dauðsföll.
Eina sýnatökustöðin í Kano var lokuð mestan hluta síðustu viku því fjórir starfsmenn hennar höfðu greinst með COVID-19.