„Við teljum að það hefði verið hægt að stöðva þetta strax í upphafi. Það hefði verið hægt að stöðva þetta mjög fljótt og þetta hefði ekki breiðst út um allan heim.“
Sagði Trump sem hefur áður gagnrýnt Kínverja fyrir viðbrögð þeirra við veirunni skæðu.
Í upphafi árs var Trump mikið fyrir að hrósa Kínverjum en síðan sneri hann blaðinu alveg við og hefur sakað kínversk stjórnvöld um að hafa ekki veitt fullnægjandi upplýsingar og/eða rangar upplýsingar um faraldurinn.
Hann hefur einnig sagt að það muni hafa afleiðingar fyrir Kínverja ef sannast að þeir beri ábyrgð á faraldrinum. Hann átti upptök sín í milljónaborginni Wuhan.
Í síðustu viku sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkin væru „mjög sannfærð“ um að Kínverjar hefðu gert mistök með því að tilkynna ekki um veiruna og hafi leynt því hversu hættuleg hún er. Kínverska utanríkisráðuneytið hefur neitað þessu og segir að engin mistök hafi verið gerð eða því leynt hversu hættuleg veiran er.