Það er ekkert leyndarmál að mannúðarsamtök Gateshjónanna, Bill & Melinda Gates Foundation, vinna að því að þróa bóluefni gegn veirunni. Í samtali við The Times sagði Gates að hann hyggist reisa nokkrar verksmiðjur sem geta framleitt milljarða skammta af bóluefni og það áður en það hefur verið samþykkt til notkunar.
Gates hefur í hyggju að láta reisa fjórar eða fimm verksmiðjur fyrir þessa framleiðslu þrátt fyrir að líklegast verði aðeins þörf fyrir eina eða tvær þegar upp verður staðið. Með þessu sparast dýrmætur tími sagði hann við The Times.
Hann hefur mikla trú á bóluefni sem vísindamenn við Oxfordháskóla eru nú að þróa en tilraunir með það eru hafnar á mönnum.
„Ef niðurstöðurnar lofa góðu munum við byrja fjöldaframleiðslu.“
Sagði Gates sem sagði í viðtali við The Times í febrúar á síðasta ári að yfirvofandi heimsfaraldur væri það eina sem gæti haldið vöku fyrir honum.
„Það eru hundrað ár síðan síðasti alheimsfaraldur inflúensu reið yfir. Fólk ferðast meira í dag sem eykur smithraðann.“
Sagði hann þá.