Donald Trump, forseti, skrifaði undir lögin í gær og þau hafa því tekið gildi.
Þingmenn komu saman í fyrsta sinn í nokkrar vikur til að greiða atkvæði um frumvarpið en þingið hefur ekki starfað með hefðbundnum hætti vegna COVID-19 faraldursins. Strangar reglur höfðu verið settar um að þingmennirnir ættu að halda góðri fjarlægð sín á milli í þinghúsinu og því tók atkvæðagreiðslan langan tíma.
Þingið hefur nú samþykkt að veita 3.000 milljörðum dollara í margvíslega aðstoð vegna faraldursins. Aldrei áður hefur þingið samþykkt svo mikil útgjöld vegna áfalla sem riðið hafa yfir.
Áður en hjálparpakkinn var samþykktur samþykkti fulltrúadeildin að setja á laggirnar sérstaka nefnd sem á að fylgjast með aðgerðum yfirvalda vegna faraldursins. Nefndin getur rannsakað hvernig peningum frá alríkisstjórninni verður varið, hvort yfirvöld séu reiðubúin fyrir það sem þarf að gera og hvernig ríkisstjórn Trump stendur undir ábyrgðinni sem á henni hvílir. Repúblikanar eru ekki sáttir við þetta og segja þetta óþarfa tilraun til að reyna að sverta Trump á kosningaári.