Það var CNN sem skýrði frá þessu og suður-kóreski miðillinn Daily NK, sem er rekinn af landflótta Norður-Kóreumönnum, skýrði frá því í kjölfarið að leiðtoginn hefði gengist undir aðgerð vegna margvíslegra hjarta- og æðasjúkdóma. Aðgerðin er sögð hafa verið gerð á einkasjúkrahúsi Kim-fjölskyldunnar í Hyangsang. Hann sást síðast opinberlega 11. apríl á fundi hjá kommúnistaflokknum. Aðgerðin er sögð hafa verið gerð daginn eftir. Þremur dögum síðar skaut her landsins nokkrum eldflaugum út á Japanshaf. Leiðtoginn sýnir sig yfirleitt við eldflaugaskot sem þessi en lét sig alveg vanta í þetta sinn.
Richard O‘Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin fylgist náið með stöðu mála í Norður-Kóreu. Bruce Klingner, sérfræðingur í málefnum einræðisríkisins, segir að margar sögur gangi um heilsufar leiðtogans. Það hafi áður gerst að slíkar sögur hafa farið á kreik og því verði að bíða og sjá hvað er satt og rétt.
Vitað er að heilsufar leiðtogans hefur verið slæmt. Hann er í mikilli yfirþyngd, reykir, mæðist mikið og er stressaður. Vitað er að hann nýtur hins ljúfa lífs. Hann fær reglulega matarsendingar frá Kína, til dæmis franska gæsalifur, ferskan humar og sérvalin vín. Á sama tíma fær stór hluti þjóðar hans ekki næga næringu.
Heilsufar hans er flokkað sem ríkisleyndarmál í Norður-Kóreu og því er erfitt fyrir erlendar leyniþjónustur að afla sér upplýsinga um heilsufar hans.
Staðan er alvarlega að mati Bandaríkjanna sem sendu nokkrar herflugvélar inn yfir Norður-Kóreu í gær til njósna og fóru ekki leynt með það. Meðal annars var flogið yfir höfuðborgina Pyongyang. Venjulega eru flug sem þessi mjög leynileg en nú virðist hafa verið ætlunin að láta vélarnar sjást. Markmiðið gæti verið að reyna að þvinga fram viðbrögð frá Norður-Kóreu.