Sama staða er uppi á smitsjúkdómadeildinni og gjörgæsludeildinni að sögn Benfield sem sagðist taka með í reikninginn að sjúkrahúsið tekur hlutfallslega á móti fleiri innflytjendum en önnur sjúkrahús vegna staðsetningar þess. BT skýrir frá þessu. Hann vill nú að landlæknisembættið geri úttekt á hversu margir innflytjendur hafa smitast af veirunni.
Morten Sodemann, yfirlæknir og prófessor á lyflækningadeild fyrir innflytjendur á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum, tekur í sama streng og segir mikilvægt að þetta verði kannað þrátt fyrir að ekki séu merki um að faraldur hafi beinlínis geisað meðal minnihlutahópa innflytjenda eins og gerst hafi í Stokkhólmi og Bandaríkjunum.
Sænskir fjölmiðlar hafa skýrt frá því að COVDI-19 veiran hafi lagst sérstaklega þungt á íbúa í þeim hverfum Stokkhólms sem glíma við mörg félagsleg vandamál. Margir af sómölskum uppruna létust í upphafi faraldursins þar í borg. Tölur frá Englandi sýna að þriðjungur þeirra, sem eru lagðir inn á gjörgæslu, eru af innflytjendaættum.
Sodemann sagði að innflytjendur búi oft margir í litlum íbúðum og eigi því erfiðara með að einangra sig frá öðrum. Hann sagðist þó ekki hafa tekið eftir óvenjulega háu hlutfalli innflytjenda á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum.
Benfield segir að það sé erfiðara að sinna sjúklingum af innflytjendaættum því algengara sé að þeir séu með sykursýki, í ofþyngd, of háan blóðþrýsting og hjarta- og æðasjúkdóma. Þeir geti því verið í meiri hættu ef þeir smitast af veirunni.