Í því samhengi er rétt að hafa í huga að í Saare amti, þar sem eyjan Saaremaa og nokkrar aðrar eyjar eru, búa 33.000 manns en í Harju amti, sem nær meðal annars yfir höfuðborgarsvæðið, búa rúmlega 580.000 manns. Err.ee skýrir frá þessu.
Eins og áður sagður hefur verið lokað fyrir komur og brottfarir frá eyjunni nema í algjörum undantekningartilfellum. Ein af gildum undantekningum er til dæmis að fólk þarf á læknismeðferð að halda vegna COVID-19 smits. Vegna fjölda smita á eyjunni, þar sem aðeins eitt sjúkrahús er, hafa margir af hinum smituðu verið fluttir á sjúkrahús á meginlandinu.
Fyrir helgi var búið að staðfesta 500 smit í Saare amti en Edward Laane, yfirlæknir á sjúkrahúsinu á Sarremaa, sagði í samtali við BBC að um helmingur íbúa eyjunnar væri líklega smitaður. Búast megi við að leggja þurfi þúsund manns inn á sjúkrahús á næstu dögum vegna þessa. Á sjúkrahúsi eyjunnar eru aðeins 149 rúm.
Talið er að tveir blakleikir, 4. og 5. mars hafi verið kveikjan að faraldrinum. Þá kom blaklið Powervolley Milano til eyjunnar til að spila tvo leiki gegn Saaremaa VK. Um 1.000 manns mættu til að fylgjast með leikjunum.
Viku síðar kom í ljós að COVID-19 veiran hafði verið með í för en þá veiktust tveir áhorfendur og síðan fylgdu veikindi hjá leikmönnum beggja liða, þjálfurum og dómurum.
Þann 7. mars söfnuðust eyjaskeggjar aftur saman en nú var það kampavínshátíð sem dró þá að. BBC segir að talið sé að þar hafi veiran einnig dreifst. Daginn eftir var alþjóðlegur baráttudagur kvenna en samkvæmt frétt err.ee heimsóttu fleiri fjölskyldur sínar, en venja er, á þessum degi og það gæti hafa ýtt enn frekar undir smit.